Ég er fædd og uppalin í Reykjavík, með B.A. gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og M.A. og M.Phil. gráðu í enskum bókmenntum frá Columbia University í Bandaríkjunum. Ég stunda nú meistaranám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, meðfram starfi. Ég á fjórtán ára gamlan Labradorhund, Kugg, sem er mikill öðlingur og grár í vöngum. Ég hef sterka réttlætiskennd og lít á starf stéttarfélaga sem grundvallarhreyfiafl í samfélaginu til að bæta stöðu allra sem búa á Íslandi.
Ég starfa sem framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands, félagasamtaka sem stofnuð voru 1907 til að vinna að bættum réttindum kvenna og jafna stöðu kynjanna. Í starfi mínu hef ég unnið náið með samtökum launafólks að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði, t.d. með baráttufundum út um allt land á kvennafrídegi 2016 og 2018 og þjóðfundi #MeToo-kvenna 2018. Kvenfrelsi verður ekki náð fyrr en launamunur kynjanna heyrir sögunni til.
Ég er einnig sjálfstætt starfandi bókmenntafræðingur og hef meðal annars tekið að mér útvarpsþáttagerð hjá Ríkisútvarpinu. Sú reynsla hefur kennt mér að við sem erum sjálfstætt starfandi erum oft utanveltu þegar kemur að sanngjörnum launum, kjörum og réttindum.
Ég hef langa reynslu af félagsstörfum, allt frá því ég tók sæti í fyrstu stjórn minni á menntaskólaárunum. Ég hef setið í stjórn Fræðagarðs frá 2019 og gegnt starfi gjaldkera síðustu tvö árin. Einnig gegni ég stöðu formanns Félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi, er einn skipuleggjenda IceCon – alþjóðlegrar furðusagnahátíðar og er varamaður í stjórn evrópsku regnhlífarsamtakanna European Women’s Lobby.
Ég er vön því að koma fram opinberlega, bæði í fjölmiðlum og að halda fyrirlestra, jafnt á íslensku sem ensku. Sjónvarpsviðtöl við mig hafa m.a. birst í BBC World, CNN International, Deutsche Welle, DR 1, France 24, NPR og Vox á Netflix, sum í beinni útsendingu.
Ég hef mikinn áhuga á menntun, lestri, þekkingarmiðlun og frjálsu aðgengi að upplýsingum. Ég hef skráð (nokkurn veginn) allt bókasafn mitt og birt þann lista á netinu. Ég byggði einnig lítið skiptibókasafn fyrir hverfið mitt, Skakkasafn, og sé um það. Ég gaf út barnabókina Sjáðu svarta rassinn minn árið 2010, þar sem ég endursagði á nútímamáli íslenskar þjóðsögur þar sem sterkar stelpur eru í aðalhlutverki. Hægt er að hlýða á fjölda útvarpsþátta um bækur og bókmenntir eftir mig á vef RÚV. Mínir eftirlætisþættir eru án efa þátturinn um framhaldslíf bóka sem fjallar um hvað gerist þegar við þurfum að grisja í bókaskápunum og þátturinn sem ég skrifaði til afa míns þar sem ég skoða íslenskar bókmenntir á esperanto, jafnrétti, frið og frelsi á jaðri Evrópu.