brynhildurho.is
01

NAFN

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir

NETFANG

binna bleik undirskrift
01

Formaður Visku

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir

Við í Visku stöndum sameinuð til að tryggja bætta samningsstöðu félagsfólks, stóreflda þjónustu við félagsfólk og sterkari rödd í samfélagsumræðunni. 

Framboð til formanns Visku

 Kæru félagar!

Ég heiti Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir og ég býð mig fram til áframhaldandi starfa sem formaður Visku.

Ég hef verið formaður Visku frá því að félagið var stofnað í árslok 2023, en áður gegndi ég embætti formanns Fræðagarðs. Ásamt stjórn og starfsfólki hef ég unnið að uppbyggingu Visku síðustu tvö árin, ávallt með það að leiðarljósi að búa til sterkt félag sem sinnir öflugri hagsmunagæslu og veitir framúrskarandi þjónustu fyrir félagsfólk. 

Ég óska eftir stuðningi félagsfólks að fylgja eftir þeirri uppbyggingu sem nú er hafin í Visku, til að búa til sterkt og öflugt stéttarfélag sem tekur virkan þátt í samfélagsumræðunni. 

Sameining og félagslegir innviðir

Stéttarfélagið Viska varð að veruleika í árslok 2023, við sameiningu þriggja félaga innan BHM, Fræðagarðs, Félags íslenskra félagsvísindamanna (FÍF) og Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga (SBU).

Draumurinn um sameiningu varð til í upphafi árs 2023, þegar við formenn þessara þriggja félaga settumst niður til skrafs og ráðagerða með framkvæmdastjóra þjónustuskrifstofu félaganna. Fljótt kom í ljós að það var meira en að segja það að sameinast í eitt stórt stéttarfélag. Á hinum Norðurlöndunum hefur verið mun algengara að félög sameini krafta sína, en færri dæmi eru um það hér á Íslandi. Við í stjórnum félaganna þriggja leituðum ráða hjá öðrum stéttarfélögum sem hafa gengið í gegnum sameiningu og lögðum allt okkar af mörkum til að sameiningin tækist í félagspólitískri sátt og samvinnu. 

Þetta fyrsta starfsár Visku var stjórn félagsins skipuð stjórnarfólki stofnfélaganna þriggja og var okkur falið að byggja upp alla innviði sameinaðs félags. Á árinu unnum við að því að fara yfir og innleiða reglur og verkferla nýs félags. 

Stjórn lagði áherslu á að byggja upp félagslega innviði, hvernig við gætum eflt samstöðu og félagsstarf ólíkra hópa innan Visku með uppbyggingu kjaradeilda og félagsneta, sem og auknu samstarfi við fagfélög og nemendafélög háskólanema. Einnig lögðum við áherslu á að efla norrænt samstarf og hefur félagið nú gert formlega samstarfssamninga við sambærileg stéttarfélög á hinum Norðurlöndunum sem fela í sér aðstoð við félagsfólk Visku sem hefur störf í þeim löndum.

Á árinu tókum við í Visku á móti kjaradeildum Arkitektafélags Íslands (AÍ) og Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM) sem runnu inn í félagið, samhliða því að gerður var samstarfssamningur við AÍ og SÍM. 

Öflug skrifstofa og bætt þjónusta við félagsfólk

Ásamt því að fara yfir félagslega innviði Visku, þurftum við í stjórn að byggja upp sterka skrifstofu til að sinna kjaramálum og þjónustu við félagsfólk. Starfsfólk skrifstofunnar vann þétt með stjórn að uppbyggingu þjónustu við félagsfólk.

Í upphafi árs 2024 störfuðu sjö á skrifstofu Visku en í lok árs vorum við orðin tíu.  Á skrifstofu Visku starfa nú ráðgjafar sem sinna beinni þjónustu við félagsfólk, sem og sérfræðingar sem vinna að kjaramálum og rannsóknum og greiningum á vinnumarkaði.

Á skrifstofunni getur félagsfólk leitað aðstoðar í málum sem tengjast réttindum sínum í starfi, sem og fengið ráðgjöf um vinnutengd mál svo sem atvinnuleit, ráðningarferli, starfslok, veikindarétt og lífeyrisrétt. Á skrifstofunni starfar einnig félagsráðgjafi sem getur veitt sértæka aðstoð til félagsfólks sem á við veikindi að stríða.

Skrifstofan flutti í nýtt húsnæði að Borgartúni 27 á haustmánuðum 2024, en þar hefur Viska hefur til umráða eigin fundarsal, en áður fyrr deildum við sal með öðrum aðildarfélögum BHM. Viskusalurinn er hjarta félagsstarfsins í framtíðinni, þar sem félagið getur skipulagt fræðslu og viðburði fyrir félagsfólk, sem og boðið hópum innan félagsins aðstöðu fyrir eigin fundarhöld.

Vorið 2024 opnaði ný vefsíða félagsins, viska.is, þar sem félagsfólk getur leitað svara við helstu spurningum sínum um kjaramál. Á síðunni er einnig að finna Mínar síður þar sem félagsfólk getur fylgt eftir erindum sínum.

Kjarabætur ekki bara á fjögurra ára fresti

Samhliða uppbyggingarstarfinu áttum við í Visku í kjaraviðræðum við alla viðsemjendur á síðasta ári. Um sumarið skrifuðum við undir langtímasamning við ríkið fyrst BHM félaga, og haustið 2024 skrifuðum við undir langtímasamning við sveitarfélög og Reykjavíkurborg. 

Á haustmánuðum 2024 gerði Viska í fyrsta skipti kjarasamning við Félag atvinnurekenda, sem er mikilvægt skref í að tryggja réttindi félagsfólks á almenna markaðnum. Viska skrifaði gerði kjarasamning við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu í febrúar 2025 og þegar þetta er skrifað eru yfirstandandi viðræður við Samtök atvinnurekanda.

Þau aðildarfélög sem stofnuðu Visku áttu stofnanasamninga við 109 stofnanir og voru langflestir samningar komnir til ára sinna. Á árinu var ráðinn inn sérfræðingur á skrifstofuna til að hafa umsjón með þeim stofnanasamningum og starfsmatskerfum sem félagsfólk Visku starfar eftir, með það að markmiði að allir stofnanasamningar verði endurskoðaðir með reglubundnum hætti í framtíðinni.

Markmið okkar í Visku er að vinna að stöðugum kjarabótum fyrir félagsfólk. Launahækkanir og kjarabætur vinnast ekki bara á fjögurra ára fresti við kjarasamningsborðið, heldur ber okkur á skrifstofu félagsins að vinna að stöðugum umbótum með reglubundinni uppfærslum á stofnanasamningum hjá ríki, virkri þátttöku í umbótum á starfsmatskerfum sveitarfélaga, og stöðugum samræðum við fyrirtæki á almennum markaði fyrir hönd félagsfólks.

Jafnrétti og framtíð vinnumarkaðarins

Langtímaverkefni okkar sem störfum innan verkalýðshreyfingarinnar er að leiðrétta skakkt verðmætamat starfa. Hefðbundin kvennastörf eru almennt metin til lægri launa en hefðbundin karlastörf. Mér finnst mikilvægt að við sem störfum innan verkalýðshreyfingarinnar tökum höndum saman um að leiðrétta þennan mismun. 

Leiðrétting á langvarandi kjaramisrétti kynjanna er réttlætismál sem helst í hendur við margar aðrar aðgerðir sem áfram þarf að leggja áherslu á, svo sem að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla, auka sveigjanleika í störfum, bæta starfsumhverfi til að sporna gegn kulnun, koma í veg fyrir ofbeldi og áreitni á vinnustöðum (#MeToo) og vinna gegn fjölþættri mismunun. Fjölbreytileiki starfsfólks styrkir íslenskan vinnumarkað og samfélag. Auka þarf framboð íslenskukennslu fyrir aðflutt fólk á vinnumarkaði og tryggja það að innflytjendur þekki réttindi sín og kjör á vinnumarkaði. 

Stórt verkefni Visku í lengd og bráð er að vinna að því að tryggja stöðu launafólks á vinnumarkaði sem tekur örum breytingum. Þótt snjalltækni og gervigreind bjóði vissulega upp á ýmis tækifæri, tækifæri sem sumt félagsfólk Visku er í góðri stöðu til að nýta sér vegna menntunar sinnar og reynslu, eru ýmsar hættur í henni fólgnar, t.d. vegna breytinga á störfum og verktakaráðninga. Viska þarf að vera öflug rödd í því að treysta réttindi launafólks í þessu breytilega vinnumarkaðsumhverfi. 

Sterk saman

Í Visku eru nú rúmlega 5.300 félagar og við erum eitt af stærstu stéttarfélögum landsins. Að mörgu er að hyggja. Við þurfum að fylgja eftir breytingum á námslánakerfinu, tryggja húsnæðisöryggi og barnabætur, treysta veikindarétt á almenna vinnumarkaðnum, treysta lífeyrisréttindi og svo má lengi telja.

Við erum stórt félag og öflugt og eigum að taka virkan þátt í samfélagsumræðunni og stýra henni okkur öllum til heilla. Til að svo megi verða þarf félagið að vera sýnilegt út á við og ég tel mig í stakk búna til að leiða það starf í góðri samvinnu við félagsfólk, stjórn og systurfélög okkar í BHM.

Samstaða vinnandi fólks er grundvöllur í baráttunni fyrir betri kjörum, ekki síst háskólamenntaðra sérfræðinga. Margt hefur áunnist síðustu árin og áratugina, en við eigum marga sigra eftir til að bæta lífskjör okkar allra. Ef ég hlýt kosningu sem formaður Visku mun ég starfa af heilindum og krafti að bættum kjörum félagsfólks og réttlæti á vinnumarkaði. 

Ég vonast til að heyra frá ykkur, hvort sem þið hafið spurningar, tillögur eða áskoranir.

Sköpum saman betri framtíð!

binna bleik undirskrift

Um mig

Ég er fædd og uppalin í Reykjavík, með B.A. gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og M.A. og M.Phil. gráðu í enskum bókmenntum frá Columbia University í Bandaríkjunum. Ég stunda nú meistaranám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, meðfram starfi. Ég hef sterka réttlætiskennd og lít á starf stéttarfélaga sem grundvallarhreyfiafl í samfélaginu til að bæta stöðu allra sem búa  á Íslandi.

Ég gegni embætti formanns stéttarfélagsins Visku, stærsta aðildarfélags BHM. Viska er ört vaxandi stéttarfélag, með félagsfólk sem starfar á öllum sviðum samfélagsins. Sem formaður legg ég áherslu að opna félagið fyrir ólíkum röddum. Inngilding, mannréttindi og lýðræði er lykillinn að sterkri framtíð félagsins og samfélags okkar allra.

Ég starfaði í áratug sem framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands, félagasamtaka sem stofnuð voru 1907 til að vinna að bættum réttindum kvenna og jafna stöðu kynjanna. Í starfi mínu hef ég unnið náið með samtökum launafólks að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði, t.d. með baráttufundum út um allt land á kvennafrídegi 2016 og 2018 og þjóðfundi #MeToo-kvenna 2018. Kvenfrelsi verður ekki náð fyrr en launamunur kynjanna heyrir sögunni til.

Ég er einnig sjálfstætt starfandi bókmenntafræðingur og hef meðal annars tekið að mér útvarpsþáttagerð hjá Ríkisútvarpinu. Sú reynsla hefur kennt mér að við sem erum sjálfstætt starfandi erum oft utanveltu þegar kemur að sanngjörnum launum, kjörum og réttindum.  

Ég hef langa reynslu af félagsstörfum, allt frá því ég tók sæti í fyrstu stjórn minni á menntaskólaárunum. Ég var fyrst kjörin í stjórn Fræðagarðs 2019 og þar sem formaður 2022. Vorið 2023 hófust sameiningarviðræður Fræðagarðs við tvö önnur stéttarfélög innan BHM, Félag íslenskra félagsvísindamanna og Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga, og sameinuðust félögin þá um haustið undir nýju nafni – Viska, þar sem ég gegni embætti formanns. Einnig gegni ég embætti ritara Félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna og kvára á Íslandi og sit í stjórn evrópsku regnhlífarsamtakanna European Women’s Lobby.

Ég er vön því að koma fram opinberlega, bæði í fjölmiðlum og að halda fyrirlestra, jafnt á íslensku sem ensku. Sjónvarpsviðtöl við mig hafa m.a. birst í BBC World, CNN International, Deutsche Welle, DR 1, France 24, NPR og Vox á Netflix, sum í beinni útsendingu.

Ég hef mikinn áhuga á menntun, lestri, þekkingarmiðlun og frjálsu aðgengi að upplýsingum. Ég hef skráð (nokkurn veginn) allt bókasafn mitt og birt þann lista á netinu. Ég gaf út barnabókina Sjáðu svarta rassinn minn árið 2010, þar sem ég endursagði á nútímamáli íslenskar þjóðsögur þar sem sterkar stelpur eru í aðalhlutverki. Hægt er að hlýða á fjölda útvarpsþátta um bækur og bókmenntir eftir mig á vef RÚV. Mínir eftirlætisþættir eru án efa þátturinn um framhaldslíf bóka sem fjallar um hvað gerist þegar við þurfum að grisja í bókaskápunum og þátturinn sem ég skrifaði til afa míns þar sem ég skoða íslenskar bókmenntir á esperanto, jafnrétti, frið og frelsi á jaðri Evrópu.

Brynhildur á CNN
Brynhildur spjallar um Júróvisjón á RÚV árið 2021
Brynhildur ávarpar fund mannréttindarvíddar ÖSE (Human Dimension Implementation Meeting, HDIM) 2019
Brynhildur stýrir pallborði á bókmenntahátíðinni Mýrinni 2021
Brynhildur í viðtali í Kastljósi árið 2022 um #JÁTAK til að hvetja öll framboð til borgar-, bæjar- og sveitarstjórna til að huga að fjölbreytni, standa vörð um jafnan rétt allra kynja og stilla upp listum sem spanna vel fjölbreytt litróf mannlífsins
Brynhildur heldur fyrirlestur um íslenskar lausnir í jafnréttismálum á Asahi World Forum 2019 í Tókýó.
Brynhildur tekur á móti ungliðum úr þýsku verkalýðshreyfingunni á skrifstofu Kvenréttindafélagsins.
  • Formaður Visku (2023–). Formaður í stéttarfélaginu Visku, stærsta aðildarfélagi BHM. Ég leiði kjaraviðræður fyrir hönd félagsfólks og vinn með öðrum aðilum á vinnumarkaði að bættum kjörum félagsfólks. Ásamt stjórn og starfsfólki hef ég unnið að uppbyggingu á skrifstofu félagsins sem sinnir þjónustu við félagsfólk, gerir rannsóknir og greiningar á stöðu félagsfólks á vinnumarkaði og sinnir almennri hagsmunagæslu.
    2023
  • Formaður Fræðagarðs (2022–2023). Formaður í stéttarfélaginu Fræðagarði. Á formannstíð minni tók ég þátt í sameiningarviðræðum félagsins við önnur stéttarfélög innan BHM sem leiddi til stofnunar Visku haustið 2023.
    2022
  • Framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands (2011–2022). Umsjón með daglegum rekstri, bókhaldi og fjáröflun, verkefna- og viðburðarstjórnun, samskipti við fjölmiðla, fræðsla, skrif á umsögnum og skýrslum, eftirlit með stjórnvöldum og samskipti við Alþingi og stjórnvöld, samvinna með félagasamtökum og opinberum stofnununum, umsjón með alþjóðlegu starfi, samskipti við alþjóðleg samtök og alþjóðaeftirlitsstofnanir svo sem Kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna.
    2011
  • Upplýsingafulltrúi, Gljúfrasteinn (2010–2011) Upplýsingaþjónusta til gesta safnsins og fræðimanna, vaktstjórn, umsjón með vef, undirbúningur og umsjón menningarviðburða. Tók þátt í skrifum á bókinni Gljúfrasteinn: hús skáldsins (2012).
    2010
  • Stundakennari, Johannes Gutenberg Universität, Mainz (2005–2006) Kenndi tvo áfanga í bandarískum bókmenntum. Hannaði áfangana sjálf og valdi lesefni og aðferðir við kennslu. Starfið fólst í skipulagningu á áföngum, skrifum á vikulegum fyrirlestrum, yfirlestri á vikulegum verkefnum nemenda og leiðbeiningu við skrif lokaritgerða nemenda.
    2005
  • Stundakennari, ritkennari og aðstoðarkennari, Columbia University, New York (2003–2009) Kenndi áfanga í ritlist og akademískum skriftum fyrir háskólanema. Starfaði í „Writing Center“ þar sem nemendur fengu ráðgjöf við ritgerðasmíð. Starfaði einnig sem aðstoðarkennari þar sem ég las yfir ritgerðir og próf og veitti nemendum stuðning.
    2003
  • Sjálfstætt starfandi bókmenntafræðingur (2000–) Greinahöfundur, gagnrýnandi, fyrirlesari, ritstjóri, þáttargerðamaður og þýðandi. Síðan 2011 hef ég unnið fjölda bókmenntaþátta fyrir Ríkisútvarpið – Rás 1, síðustu árin fyrir þáttaröðina Orð um bækur. Árið 2010 gaf ég út barnabókina Sjáðu svarta rassinn minn, endurskrifaðar íslenskar þjóðsögur þar sem sterkar stelpur leika aðalhlutverkið.
    2000
  • Ýmis kennslustörf og störf á bókasöfnum (1998–2003) Vann ýmis kennslu- og bókasafnsstörf til hliðar við nám í Háskóla Íslands og Columbia University. Starfaði m.a. sem bókavörður á Borgarbókasafni Reykjavíkur (1998–2000) og sem barnabókavörður á Bókasafni Garðabæjar (2001–2002). Starfaði sem enskukennari í félagsmiðstöð aldraðra (1998–2000), stuðningsfulltrúi á sambýli (2000) og sem leiðbeinandi hjá jafningjafræðslunni (2003).
    1998
Brynhildur með hamar! Fundarstjóri á hliðarviðburði fundar nefndar Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna 2018
Brynhildur í kröfugöngu með BHM og sameinaðri hreyfingu samtaka launafólks 1. maí 2022

Stefnumál

Vinnumarkaðurinn

  • Tryggja að menntun sé metin til launa, fylgja eftir breytingum á námslánakerfi og treysta lífeyrisréttindi.
  • Leiðrétta þarf starfsmatskerfi sveitarfélaga til að tryggja að laun séu í samræmi við menntun, reynslu og ábyrgð.
  • Grípa til aðgerða til að tryggja réttindi og kjör sjálfstætt starfandi og félagsfólks í óhefðbundnu ráðningarsambandi. Bæta þarf þjónustu og stuðning við þennan hóp.
  • Sterkir kjarasamningar, tímanlegur og faglegur undirbúningur sem byggður er á kröfum félagsfólks og í góðu samstarfi við aðildarfélög BHM.
  • Stöðugar endurbætur á stofnanasamningum og starfsmatskerfum sem félagsfólk Visku starfar undir.
  • Uppræta ofbeldi og áreitni á vinnustöðum, veita atvinnurekendum og stjórnvöldum aðhald, tryggja skýra verkferla og fagleg vinnubrögð.
  • Grípa til aðgerða til að bæta starfsumhverfi og tryggja líkamlegt og andlegt heilbrigði félagsfólks með hliðsjón af álagi í starfi.  
  • Gera endurmat á störfum kvenna að forgangsmáli ásamt endurskoðun jafnlaunastaðals.
  • Brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.
  • Tryggja þarf aðgengi aðflutts starfsfólks að viðeigandi fræðslu um kjör sín og réttindi á íslenskum vinnumarkaði, sem og íslenskukennslu.
  • Gott samstarf við verkalýðshreyfinguna alla. Samstaða vinnandi fólks er grundvöllur í baráttunni fyrir betri kjörum, ekki síst háskólamenntaðs starfsfólks.

Viska

  • Halda áfram uppbyggingu á þjónustu Visku og skrifstofu.
  • Aukið samráð við félagsfólk, t.d. með reglubundnum rafrænum félagsfundum og reglulegum þjónustukönnunum.
  • Aukin fræðsla fyrir félagsfólk, s.s. um réttindi á vinnumarkaði.
  • Efla stuðning við félagsfólk í atvinnuleit.
  • Áframhaldandi uppbygging á Mínum síðum félagsfólks.
  • Rækta starf félagsneta og kjaradeilda sem starfrækt eru innan félagsins og fjölga hópum.
  • Efla samstarf félagsins við ólíkar fagstéttir innan Visku.
  • Áframhaldandi uppbygging námsmannaþjónustu Visku.
  • Sterkari rödd og ásýnd félagsins út á við og áframhaldandi uppbygging á Visku á samfélagsmiðlum.
  • Reglulegar rannsóknir og greiningar á stöðu félagsfólks á vinnumarkaði.
  • Festa í sessi verklag og starfsreglur sem hafa verið mótaðar um starfsemi Visku.

Greinar

norry

Hlustum á starfs­fólk ríkisins

Ný ríkisstjórn hefur sett sér markmið um hagkvæmari ríkisrekstur, leitað samráðs við þjóðina og hafa þúsundir tillagna borist frá almenningi. En merkilegt nokk hefur ekki

Lesa »
Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir

Vanmat á virði starfa á opinberum vinnumarkaði

Sveit­ar­fé­lög greiða að jafn­aði 40% lægra tíma­kaup til sér­fræð­inga en fyr­ir­tæki á almennum vinnu­mark­aði. Þetta er nið­ur­staða grein­ingar sem BHM lét vinna á launum háskóla­mennt­aðra sér­fræð­inga síð­ast­liðið

Lesa »

Verið í bandi

Ég hvet ykkur til að hafa samband við mig með spurningar og tillögur eða  áskoranir. 

Ég hlakka til að heyra frá ykkur, saman sköpum við betri framtíð!

Brynhildur