brynhildurho.is
01

NAFN

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir

NETFANG

binna bleik undirskrift
01

Formaður Fræðagarðs

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir

Samstaða vinnandi fólks er grundvöllur fyrir betri kjörum. Margt hefur áunnist síðustu árin og áratugina, en við eigum marga sigra eftir til að bæta lífskjör okkar allra.

Um mig

Ég er fædd og uppalin í Reykjavík, með B.A. gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og M.A. og M.Phil. gráðu í enskum bókmenntum frá Columbia University í Bandaríkjunum. Ég stunda nú meistaranám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, meðfram starfi. Ég hef sterka réttlætiskennd og lít á starf stéttarfélaga sem grundvallarhreyfiafl í samfélaginu til að bæta stöðu allra sem búa  á Íslandi.

Ég gegni embætti formanns stéttarfélagsins Fræðagarðs, stærsta aðildarfélags í BHM. Fræðagarður er ört vaxandi stéttarfélag, með félagsfólk sem starfar á öllum sviðum samfélagsins. Sem formaður legg ég áherslu að opna félagið fyrir ólíkum röddum. Inngilding, mannréttindi og lýðræði er lykillinn að sterkri framtíð félagsins og samfélags okkar allra.

Ég starfaði í áratug sem framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands, félagasamtaka sem stofnuð voru 1907 til að vinna að bættum réttindum kvenna og jafna stöðu kynjanna. Í starfi mínu hef ég unnið náið með samtökum launafólks að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði, t.d. með baráttufundum út um allt land á kvennafrídegi 2016 og 2018 og þjóðfundi #MeToo-kvenna 2018. Kvenfrelsi verður ekki náð fyrr en launamunur kynjanna heyrir sögunni til.

Ég er einnig sjálfstætt starfandi bókmenntafræðingur og hef meðal annars tekið að mér útvarpsþáttagerð hjá Ríkisútvarpinu. Sú reynsla hefur kennt mér að við sem erum sjálfstætt starfandi erum oft utanveltu þegar kemur að sanngjörnum launum, kjörum og réttindum.  

Ég hef langa reynslu af félagsstörfum, allt frá því ég tók sæti í fyrstu stjórn minni á menntaskólaárunum. Ég hef setið í stjórn Fræðagarðs frá 2019 og gegni nú embætti formanns. Einnig gegni ég embætti formanns Félags um Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi, er einn skipuleggjenda IceCon – alþjóðlegrar furðusagnahátíðar og er varamaður í stjórn evrópsku regnhlífarsamtakanna European Women’s Lobby.

Ég er vön því að koma fram opinberlega, bæði í fjölmiðlum og að halda fyrirlestra, jafnt á íslensku sem ensku. Sjónvarpsviðtöl við mig hafa m.a. birst í BBC World, CNN International, Deutsche Welle, DR 1, France 24, NPR og Vox á Netflix, sum í beinni útsendingu.

Ég hef mikinn áhuga á menntun, lestri, þekkingarmiðlun og frjálsu aðgengi að upplýsingum. Ég hef skráð (nokkurn veginn) allt bókasafn mitt og birt þann lista á netinu. Ég byggði einnig lítið skiptibókasafn fyrir hverfið mitt, Skakkasafn, og sé um það. Ég gaf út barnabókina Sjáðu svarta rassinn minn árið 2010, þar sem ég endursagði á nútímamáli íslenskar þjóðsögur þar sem sterkar stelpur eru í aðalhlutverki. Hægt er að hlýða á fjölda útvarpsþátta um bækur og bókmenntir eftir mig á vef RÚV. Mínir eftirlætisþættir eru án efa þátturinn um framhaldslíf bóka sem fjallar um hvað gerist þegar við þurfum að grisja í bókaskápunum og þátturinn sem ég skrifaði til afa míns þar sem ég skoða íslenskar bókmenntir á esperanto, jafnrétti, frið og frelsi á jaðri Evrópu.

Brynhildur á CNN
Brynhildur spjallar um Júróvisjón á RÚV árið 2021
Brynhildur ávarpar fund mannréttindarvíddar ÖSE (Human Dimension Implementation Meeting, HDIM) 2019
Brynhildur stýrir pallborði á bókmenntahátíðinni Mýrinni 2021
Brynhildur í viðtali í Kastljósi árið 2022 um #JÁTAK til að hvetja öll framboð til borgar-, bæjar- og sveitarstjórna til að huga að fjölbreytni, standa vörð um jafnan rétt allra kynja og stilla upp listum sem spanna vel fjölbreytt litróf mannlífsins
Brynhildur heldur fyrirlestur um íslenskar lausnir í jafnréttismálum á Asahi World Forum 2019 í Tókýó.
Brynhildur tekur á móti ungliðum úr þýsku verkalýðshreyfingunni á skrifstofu Kvenréttindafélagsins.
  • Formaður Fræðagarðs (2011 –). Formaður í stéttarfélaginu Fræðagarði, stærsta aðildarfélag BHM. Ég sinni hagsmunagæslu fyrir félagsfólk og vinn með öðrum aðilum á vinnumarkaði að betra samfélagi fyrir okkur öll.
    2022
  • Framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands (2011 –). Umsjón með daglegum rekstri, bókhaldi og fjáröflun, verkefna- og viðburðarstjórnun, samskipti við fjölmiðla, fræðsla, skrif á umsögnum og skýrslum, eftirlit með stjórnvöldum og samskipti við Alþingi og stjórnvöld, samvinna með félagasamtökum og opinberum stofnununum, umsjón með alþjóðlegu starfi, samskipti við alþjóðleg samtök og alþjóðaeftirlitsstofnanir svo sem Kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna.
    2011
  • Upplýsingafulltrúi, Gljúfrasteinn (2010–2011) Upplýsingaþjónusta til gesta safnsins og fræðimanna, vaktstjórn, umsjón með vef, undirbúningur og umsjón menningarviðburða. Tók þátt í skrifum á bókinni Gljúfrasteinn: hús skáldsins (2012).
    2010
  • Stundakennari, Johannes Gutenberg Universität, Mainz (2005–2006) Kenndi tvo áfanga í bandarískum bókmenntum. Hannaði áfangana sjálf og valdi lesefni og aðferðir við kennslu. Starfið fólst í skipulagningu á áföngum, skrifum á vikulegum fyrirlestrum, yfirlestri á vikulegum verkefnum nemenda og leiðbeiningu við skrif lokaritgerða nemenda.
    2005
  • Stundakennari, ritkennari og aðstoðarkennari, Columbia University, New York (2003–2009) Kenndi áfanga í ritlist og akademískum skriftum fyrir háskólanema. Starfaði í „Writing Center“ þar sem nemendur fengu ráðgjöf við ritgerðasmíð. Starfaði einnig sem aðstoðarkennari þar sem ég las yfir ritgerðir og próf og veitti nemendum stuðning.
    2003
  • Sjálfstætt starfandi bókmenntafræðingur (2000–) Greinahöfundur, gagnrýnandi, fyrirlesari, ritstjóri, þáttargerðamaður og þýðandi. Síðan 2011 hef ég unnið fjölda bókmenntaþátta fyrir Ríkisútvarpið – Rás 1, síðustu árin fyrir þáttaröðina Orð um bækur. Árið 2010 gaf ég út barnabókina Sjáðu svarta rassinn minn, endurskrifaðar íslenskar þjóðsögur þar sem sterkar stelpur leika aðalhlutverkið.
    2000
  • Ýmis kennslustörf og störf á bókasöfnum (1998–2003) Vann ýmis kennslu- og bókasafnsstörf til hliðar við nám í Háskóla Íslands og Columbia University. Starfaði m.a. sem bókavörður á Borgarbókasafni Reykjavíkur (1998–2000) og sem barnabókavörður á Bókasafni Garðabæjar (2001–2002). Starfaði sem enskukennari í félagsmiðstöð aldraðra (1998–2000), stuðningsfulltrúi á sambýli (2000) og sem leiðbeinandi hjá jafningjafræðslunni (2003).
    1998
Brynhildur með hamar! Fundarstjóri á hliðarviðburði fundar nefndar Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna 2018
Brynhildur í kröfugöngu með BHM og sameinaðri hreyfingu samtaka launafólks 1. maí 2022

Greinar

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir

Vanmat á virði starfa á opinberum vinnumarkaði

Sveit­ar­fé­lög greiða að jafn­aði 40% lægra tíma­kaup til sér­fræð­inga en fyr­ir­tæki á almennum vinnu­mark­aði. Þetta er nið­ur­staða grein­ingar sem BHM lét vinna á launum háskóla­mennt­aðra sér­fræð­inga síð­ast­liðið

Lesa »
Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir

Stéttarfélög og #MeToo

Aðeins rétt rúmlega fjögur ár eru síðan að fyrstu hópar kvenna hófu að birta á samfélagsmiðlum átakanlegar sögur af kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi

Lesa »

Stefnumál

Vinnumarkaðurinn

  • Sterkir kjarasamningar, tímanlegur og faglegur undirbúningur sem byggður er á kröfum félagsfólks og í góðu samstarfi við aðildarfélög BHM.

  • Tryggja að menntun sé metin til launa, fylgja eftir breytingum á námslánakerfi og treysta lífeyrisréttindi.

  • Leiðrétta þarf starfsmatskerfi sveitarfélaga til að tryggja að laun séu í samræmi við menntun, reynslu og ábyrgð.

  • Grípa til aðgerða til að tryggja réttindi og kjör sjálfstætt starfandi og félagsfólks í óhefðbundnu ráðningarsambandi. Bæta þarf þjónustu og stuðning við þennan hóp.
  • Uppræta ofbeldi og áreitni á vinnustöðum, veita atvinnurekendum og stjórnvöldum aðhald, tryggja skýra verkferla og fagleg vinnubrögð.

  • Treysta réttindi starfsfólks í nýju vinnuumhverfi í kjölfar COVID-19 með því að endurskoða og bæta réttindi fólks í fjarvinnu og tryggja sveigjanleika í störfum.

  • Grípa til aðgerða til að bæta starfsumhverfi og tryggja líkamlegt og andlegt heilbrigði félagsfólks með hliðsjón af álagi í starfi.  
  • Gera endurmat á störfum kvenna að forgangsmáli ásamt endurskoðun jafnlaunastaðals.

  • Brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.
  • Gott samstarf við verkalýðshreyfinguna alla. Samstaða vinnandi fólks er grundvöllur í baráttunni fyrir betri kjörum, ekki síst háskólamenntaðs starfsfólks.

Sterkari Fræðagarður

  • Efla þjónustu við félagsfólk.

  • Efla stuðning við félagsfólk í atvinnuleit og styrki til sí- og endurmenntunar.

  • Aukin fræðsla fyrir félagsfólk, s.s. um réttindi á vinnumarkaði.

  • Aukið samráð við félagsfólk, t.d. með reglubundnum rafrænum félagsfundum og reglulegum þjónustukönnunum.
  • Styrkja rödd fagdeilda innan félagsins, bæta þjónustu við starfsemi þeirra og hvetja til stofnunar nýrra deilda.
  • Sterkari rödd og ásýnd félagsins út á við og virk þátttaka í samfélagsumræðu í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum og með kynningarherferðum.
  • Skarpari ferlar og reglur til að gera innra starf félagsins faglegra.

  • Efla lýðræði og frelsi innan Fræðagarðs. Breyta lögum svo formaður sé kosinn til tveggja ára í stað fjögurra, til jafns við annað stjórnarfólk félagsins.

Framboð 2022

Kæru félagar!

Ég heiti Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir og ég býð mig fram til að gegna embætti formanns Fræðagarðs.

Ástæða þess að ég býð mig fram til forystu er að ég brenn fyrir baráttu launafólks og jafnrétti á vinnumarkaði. Ég hef setið í stjórn Fræðagarðs frá 2019 og gegnt starfi gjaldkera síðustu tvö árin. Ég tel mikilvægt að efla félagið okkar enn frekar í að bæta kjör, vinnuumhverfi og réttindi félagsfólks.

Kjaraviðræður

Framundan eru stór verkefni. Kjaraviðræður við sveitarfélög standa yfir og samningar við ríki og Reykjavíkurborg verða lausir 2023. Eitt af stóru ágreiningsmálunum er starfsmatskerfi sveitarfélaga sem hentar illa fyrir sérfræðimenntaða. Kerfið nær illa utan um stóran hluta starfa félagsfólks okkar og hentar þeim sem vinna sem sérfræðingar hjá sveitarfélögum, ekki síst konum, afleitlega. Þessu þarf að breyta. 

Ég hlakka til að leiða kjaraviðræður við aðila vinnumarkaðarins og tryggja betri kjör og réttindi félagsfólks.

Leiðréttum skakkt verðmætamat

Langtímaverkefni okkar sem störfum innan verkalýðshreyfingarinnar er að leiðrétta skakkt verðmætamat starfa. Hefðbundin kvennastörf eru almennt metin til lægri launa en hefðbundin karlastörf. Mér finnst mikilvægt að við sem störfum innan verkalýðshreyfingarinnar tökum höndum saman um að leiðrétta þennan mismun. 

Leiðrétting á langvarandi kjaramisrétti kynjanna er réttlætismál sem helst í hendur við margar aðrar aðgerðir sem áfram þarf að leggja áherslu á, svo sem að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla, auka sveigjanleika í störfum, bæta starfsumhverfi til að sporna gegn kulnun, koma í veg fyrir ofbeldi og áreitni á vinnustöðum (#MeToo) og vinna gegn fjölþættri mismunun. Fjölbreytileiki starfsfólks styrkir íslenskan vinnumarkað og samfélag.

Sanngjörn laun hjá sveitarfélögum og endurmat á virði kvennastarfa

Nú standa yfir tvö langvarandi samstarfsverkefni heildarsamtaka launafólks og stjórnvalda sem, ef vel tekst til, eiga að stuðla að miklum og varanlegum kjarahækkunum fyrir félagsfólk Fræðagarðs, sérstaklega konur og starfsfólk sveitarfélaga.

Ég sjálf hef fundið fyrir þessu vanmati á starfi kvenna og starfi hjá sveitarfélögum á eigin skinni. Ég er kona og menningarstarfsmaður. Ég hef starfað á Borgarbókasafninu og Bókasafni Garðabæjar, hjá Gljúfrasteini og sem verktaki hjá RÚV við þáttargerð. Ég veit því vel hvað starf hjá þessum mikilvægu stofnunum skilar litlu í budduna. Þetta er grátlegt vanmat á virði starfa okkar sem vinnum að menningarmálum, og í hróplegu ósamræmi við raunverulegt virði þessara starfa – að varðveita íslenskan menningararf, styðja við list- og menningarsköpun, og fræða komandi kynslóðir og erlenda gesti um íslenska menningu.

Árið 2016 sömdu ríki, sveitarfélög og heildarsamtök launafólks um að kjör launafólks á opinberum og almennum vinnumarkaði yrðu jöfnuð eins og kostur er.  Markmiðið var að tryggja að ekki yrði kerfislægur launamunur milli markaða til frambúðar. Og árið 2021 tók til starfa aðgerðarhópur um endurmat á virði kvennastarfa.

Konur eru 70% af félagsfólki Fræðagarðs og tæp 30% félagsfólks Fræðagarðs starfar hjá sveitarfélögum. Þær aðgerðir sem þessir hópar lofa skila sér því í kjarabætur fyrir meginþorra félagsfólks okkar. Launasetning stórra hópa innan okkar félags, t.d. safnafólks og starfsfólk í fræðslu-, íþrótta- og tómstundastarfsemi, er óásættanleg.

BHM á aðkomu að báðum þessum verkefnum og Fræðagarður á að taka virkan þátt í þessu starfi. Við eigum að láta í okkur heyra sem stéttarfélag, að vera virkur talsmaður fyrir þessum kjarabótum á almannavettvangi og beita þannig stjórnvöld og samningsaðila pólitískum þrýstingi til að stuðla að þessari eðlilegu og réttlátu leiðréttingu á launum fólksins okkar.

Framtíð vinnumarkaðarins

Stórt verkefni Fræðagarðs í lengd og bráð er að vinna að því að tryggja stöðu launafólks á vinnumarkaði sem tekur örum breytingum. Þótt fjórða iðnbylting snjalltækninngar bjóði vissulega upp á ýmis tækifæri, tækifæri sem sumt félagsfólk Fræðagarðs er í góðri stöðu til að nýta sér vegna menntunar sinnar og reynslu, eru ýmsar hættur í henni fólgnar, t.d. vegna verktakaráðninga og aukinnar fjarvinnu. 

Fræðagarður þarf að vera öflug rödd í því að treysta réttindi launafólks í þessu breytilega vinnumarkaðsumhverfi. Mörg okkar hafa reynslu af hark-hagkerfinu (the gig economy) og þekkja vel hvernig réttindi okkar á vinnumarkaði skerðast í þeim aðstæðum. Stéttarfélög geta og eiga að leggja áherslu á að koma í veg fyrir að vinnustaðir útvisti störfum og tryggja réttindi verkefnaráðins launafólks. 

Vegna stærðar okkar og samsetningar erum við í Fræðagarði í góðri stöðu til að leiða þessa baráttu. Fræðagarður getur orðið miðstöð þekkingar og þjónustu fyrir verktakaráðið starfsfólk, samhliða því að bjóða upp á öfluga fræðsluþjónustu og símenntun fyrir félagsfólk um réttindi á vinnumarkaði.

Sterk saman

Í Fræðagarði eru nú rúmlega 3.300 félagar og við nálgumst það hratt að verða 2% af íslenskum vinnumarkaði. Að mörgu er að hyggja. Við þurfum að fylgja eftir breytingum á námslánakerfinu, tryggja húsnæðisöryggi og barnabætur, sporna við niðurskurði í kjölfar COVID-19, treysta veikindarétt á almenna vinnumarkaðnum, treysta lífeyrisréttindi og svo má lengi telja.

Við erum stórt félag og öflugt og eigum að taka virkan þátt í samfélagsumræðunni og stýra henni okkur öllum til heilla. Til að svo megi verða þarf félagið að vera sýnilegt út á við og ég tel mig í stakk búna til að leiða það starf í góðri samvinnu við félagsfólk, stjórn og systurfélög okkar í BHM.

Samstaða vinnandi fólks er grundvöllur í baráttunni fyrir betri kjörum, ekki síst háskólamenntaðra sérfræðinga. Margt hefur áunnist síðustu árin og áratugina, en við eigum marga sigra eftir til að bæta lífskjör okkar allra. Ef ég hlýt kosningu sem formaður Fræðagarðs mun ég starfa af heilindum og krafti að bættum kjörum félagsfólks og réttlæti á vinnumarkaði. 

Ég vonast til að heyra frá ykkur, hvort sem þið hafið spurningar, tillögur eða áskoranir.

Sköpum saman betri framtíð!

binna bleik undirskrift

Verið í bandi

Ég hvet ykkur til að hafa samband við mig með spurningar og tillögur eða  áskoranir. 

Ég hlakka til að heyra frá ykkur, saman sköpum við betri framtíð!

Brynhildur